Ég byrjaði á námskeiði í gær í tískuljósmyndun. Mjög skemmtilegt.
Mig hefur lengi langað til að gera meira í tískunni, þ.e. taka fleiri tískumyndir en það hefur einhvern veginn setið á hakanum. Nú skal það breytast :-)
Fyrsta heimaverkefnið sem sett var fyrir er frekar einfalt, finna 3 erlenda tískuljósmyndara sem mér finnast flottir og 1 íslenskan.
Þeir sem urðu fyrir valinu er;
Patrick Demarchelier. Pottþétt einn af flottustu ljósmyndurum sem uppi hafa verið. Hann hefur tekið mikið af fallegum myndum og haldið fullt af flottum sýningum. Alveg pottþétt einn af mínum uppáhalds og einn af þeim sem ég lít til þegar mig vantar "inspiration"
Camilla Akrans. Ungur ljósmyndari frá Svíþjóð sem hefur verið að stimpla sig hressilega inn á síðstu árum. Hún vinnur myndirnar sínar oft á mjög skemmtiegan hátt hvað liti varðar og reynir að ná öðruvísi stemmingu.
Paolo Roversi. Mér finnst þessi ljósmyndari algjör snillingur í lýsingu. Hann nær einhvern veginn að gera myndirnar sínar svo mjúkar og fallegar. Stíllinn hans er svolítið öðruvísi en það er einmitt svo skemmtilegt við hann. Algjör snillingur.
Silja Magg. Síðasti ljósmyndarinn sem ég valdi, en alls ekki sá sísti er hin íslenska Silja Magg. Mér finnst hún frábær. Hún er búsett í New York og er við það að slá í gegn á alheimsvísu. Hún hefur unnið fyrir nokkur stór merki og gert það vel. Ljósmyndari sem vert er að fylgjast vel með í framtíðinni.